Amgen Inc., móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, hefur komist að samkomulagi um kaup á líftæknifyrirtækinu ChemoCentryx fyrir 3,7 milljarða dala eða yfir 500 milljarða króna. Búist er við að kaupin gangi í gegn á fjórða ársfjórðungi.

Kaupverðið miðar við 52 dali á hlut en gengi ChemoCentryx stóð í 24,1 dali við lokun markaða í gær. Hlutabréfaverð líftæknifyrirtækisins, sem hefur höfuðstöðvar í borginni San Carlos í Kaliforníu, hefur hækkað um 108% í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag.

Í umfjöllun Wall Street Journal segir að kaupin gætu haft í för með sér að sambærilegum viðskiptum fjölgi á næstunni, sér í lagi þar sem hlutabréfaverð líftæknifyrirtækja hefur lækkað töluvert í ár. SPDR S&P Biotech ETF vísitalan, sem nær utan um hlutabréf líftæknifyrirtækja, hefur lækkað um 30% á síðustu tólf mánuðum en til samanburðar hefur S&P 500 vísitalan lækkað um 6% á sama tímabili.

Sjá einnig: Am­gen í deilu við ríkis­skatt­stjóra BNA

ChemoCentryx, sem var stofnað fyrir 25 árum, fékk leyfi fyrir sölu og dreifingu á fyrsta lyfinu sínu Tavneos í lok síðasta árs. Tavneos er lyf gegn hópi sjaldgæfra sjúkdóma sem kallast ANCA (antineutrophil cytoplasmic antibodies). Tekjur af Tavneos námu 5,4 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi og áætlað er að salan hafi numið 10,6 milljónum dala á öðrum fjórðungi.