Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody’s hefur breytt horfum á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar úr neikvæðum í stöðugar. Breytingin kemur í kjölfar þess að Moody's breytti horfum ríkissjóðs í byrjun mánaðar.

Moody's segir sýknu Íslands í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum um mánaðamótin hafa dregið úr óvissu auk þess sem efnahagshorfur hafi batnað hér. Það komi svo fram í betri lánshæfiseinkunn landsins og þar með Landsvirkjunar.

Matsfyrirtækið Fitch breytti lánshæfiseinkunn ríkissjóðs úr BBB- í BBB í síðustu viku og er Standard & Poor's nú eina matsfyrirtækið sem ekki hefur breytt einkunn sinni.