Lánshæfismatsfyrirtækið Moody‘s hefur breytt horfunum á lánshæfismati Kína úr stöðugum í neikvæðar. Röksemdir Moody's eru lækkandi gjaldeyrisvaraforði, veiking gjaldmiðilsins og versnandi efnahagur landsins. Þetta kemur fram í Morgunpósti IFS.

Lánshæfiseinkunn Kína er þó óbreytt í Aa3. Sú einkunn er talin vera í háum gæðaflokki og felur í sér litla áhættu.

Samsetta vísitalan í Sjanghæ hækkaði um 4,26% í viðskiptum dagsins. Hlutabréfamarkaðir í Kína hafa hækkað síðustu daga eftir að Seðlabanki Kína lækkaði bindiskyldu um 0,5%. Lækkun bindiskyldunnar er talin losa um 108 milljarða Bandaríkjadali, eða 14 þúsund milljarða króna, til fjárfestingar í Kína.