Hagnaður félagsins Skálpi ehf., sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Mountaineers of Iceland, nam 15,5 milljónum króna fyrir árið 2018 samanborið við um það bil 5,5 milljónir króna árið 2017. Það gerir um 283% hækkun á milli ára.

Rekstrartekjur félagsins hækkuðu um 7% milli ára, frá 777 milljónum króna árið 2017 í 832 milljónir árið 2018. Rekstrargjöld félagsins hækkuðu úr 709 milljónum króna í 760 milljónir sem gerir um 7,2% hækkun. Þar af hækkuðu laun og launatengd gjöld um rúmlega 10%, úr 184 milljónum króna í 204 milljónir.

Eiginfjárhlutfall félagsins hækkaði á milli ára úr 36% í 43%. Þar af lækkuðu skuldir félagsins um rúmlega 16% eða úr 257 milljónum í 213 milljónir. Eigið fé félagsins hækkaði einnig á milli ára eða úr 146 milljónum í 161 milljón sem gerir um 10% hækkun.

Stjórnarmaður félagsins er Herbert Hauksson en eigendurnir eru tveir, þau Ólöf Ragnheiður Einarsdóttir og félagið Fjallamenn ehf., en hvor aðili um sig á 50% hlut.