*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 4. nóvember 2004 14:15

Mun fleiri bækur að koma út þessi jólin

fjórðungsaukning í Bókatíðindum

Ritstjórn

Meira en fjórðungs aukning, eða nánar til tekið um 26%, hefur orðið í bókakynningum í hinum árlegu Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda á milli áranna 2003 og 2004. Ástæðan er almenn sókn íslenskrar útgáfu en einnig breyttir útgáfuhættir þar sem fleiri kiljur eru gefnar út. Greinilegt er einnig að útgefendur hafa vaxandi trú á Bókatíðindunum sem kynningarmiðli. Það hefur leitt til þess að útgefendur sem lítið hafa kynnt verk sín áður í Bókatíðindunum kjósa nú að vera með. Þetta er meðal þess sem lesa má út úr Bókatíðindum 2004 sem dreift verður til allra landsmanna á næstu dögum.

Sé litið nánar á einstaka liði má sjá mjög mikla aukningu í útgáfu íslenskra barnabóka eða 43%. Þýddum barnabókum hefur einnig fjölgað mikið eða um 30%. Íslensk skáldverk eru einnig fleiri en síðasta ár. Sérstaka athygli vekur ennfremur hve mikil aukning hefur orðið í útgáfu þýddra skáldverka eða um 43%. Útgáfa þeirra hefur annars virst á undanhaldi undanfarin ár og var það mörgum áhyggjuefni.

Fræðibækur og rit almenns efnis eru stór flokkur í Bókatíðindum. Þar er fjölgun um 38 titla eða 26%. Eftirtektarvert þykir hve mikið er að þessu sinni í flokknum af sérlega glæsilegum og viðamiklum verkum sem hafa kostað mikla vinnu og fé í útgáfu.

Eins og nærri má geta er aukning í nær öllum flokkum útgáfuverka í ár. Þá bætist einn flokkur við í Bókatíðindi að þessu sinni. Þetta eru hljóðbækur en þær hafa ekki verið kynntar undir sérstöku yfirheiti áður. Útgefendum hefur hins vegar fækkað lítillega milli ára.

Þetta er í átjánda skipti sem Félag íslenskra bókaútgefenda gefur út Bókatíðindin og þau hafa að sjálfsögðu aldrei verið gildari en nú eða 216 síður miðað við 192 í fyrra.