Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,28% í 2,2 milljarða viðskiptum dagsins. Fór hún niður í 1.759,99 stig. Aðalvísitala Skuldabréfa lækkaði um 0,03% í tæplega 9,3 milljarða viðskiptum og fór hún niður í 1.367,66 stig.

Mest lækkun var á gengi bréfa N1, eða um 2,81% í 249 milljón króna viðskiptum og er gengið við lok viðskipta í 121,00 krónum. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Reita fasteignafélags, sem lækkaði um 1,86% niður í 84,50 krónur. Jafnframt voru mestu viðskiptin með bréf félagsins, en þau námu 456 milljónum króna.

Mest hækkun var á gengi bréfa Símans, en þau hækkuðu um 1,20% í 129 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 4,22 krónur. Næst á eftir koma VÍS og Icelandair með 1,00% og 0,99% hækkun, en viðskiptin með fyrrnefnda félagið námu um 40 milljónum. Fæst hvert bréf tryggingafélagsins á 13,18 krónur.

Verslun með bréf Icelandair nam hins vegar 403 milljónum króna og fæst nú hvert bréf félagsins á 15,35 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hafa forystumenn stjórnvalda á Grænhöfðaeyjum sagt að þjónustusamningur félagsins við ríkisflugfélag eyjanna yrði greiddur með hlutabréfum sem liður í einkavæðingu flugfélagsins.