*

þriðjudagur, 20. október 2020
Innlent 8. september 2020 12:50

Nálgast loksins árið 2007

Um 50% aukning var á fjölda íbúða sem byrjað var að byggja á liðnu ári, aukning á fullgerðum íbúðum nam 32% milli ára.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Fjöldi íbúða sem voru fullgerðar árið 2019 voru 3.033 og fjölgaði þeim um 32% milli ára og um 72% samanborið við árið 2017. 5.304 íbúðir voru í byggingu í lok ársins 2019 en 4.545 íbúðir á sama tíma ári áður sem er 17% aukning. 

Fjöldi íbúða sem byrjað var að byggja á árinu fjölgaði einnig mikið milli ára eða úr 2.525 íbúðum árið 2018 í 3.792 íbúðir árið 2019 sem er um 50% aukning. Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýbirtum tölum Hagstofunnar. 

Sjá einnig: Miklar lækkanir ólíklegar

Til þess að finna sambærilegar tölur fyrir fjölda íbúða sem fullgerðar eru á einu ári og sem byrjað er að byggja þarf að líta til ársins 2007. 3.348 íbúðir voru fullgerðar á því ári og 4.446 íbúðir var byrjað að byggja. Þá hafði uppbygging, á þessum mælikvarða, aldrei verið meiri en í kjölfar hrunsins varð verulegur samdráttur á framboði fasteigna og hækkaði fasteignaverð talsvert í kjölfarið.

Frá árunum 2009-2017 voru að meðaltali 1.130 íbúðir fullgerðar á ári hverju eða um 37% af þeim fjölda sem var á síðasta ári. Á sama tímabili var hafist handa að byggja 884 íbúðir að meðaltali á hverju ári eða um 23,3% af því sem byrjað var að byggja á síðasta ári.