Netflix býður starfsmönnum sínum nú að vera eins lengi frá vinnu og þeir vilja á fyrsta árinu eftir fæðingu barns síns. Fólk fær full laun greidd óháð því hvort það sé við vinnu eða ekki. Fá bandarísk fyrirtæki bjóða starfsfólki sínu jafn veglegt fæðingarorlof. The Wall Street Journal greinir frá .

„Við viljum að starfsfólk okkar hafi sveigjanleikann og sjálfstraustið til að finna jafnvægi milli vinnu og stækkandi fjölskyldu án þess að þurfa að hafa áhyggjur af vinnunni eða fjármálunum,“ sagði mannauðsstjóri hjá Netflix, Tawni Cranz, þegar ákvörðunin var tilkynnt í gær.

Um það bil einn fimmti fyrirtækja og stofnana í Bandaríkjunum bjóða upp á fæðingarorlof umfram það sem krafist er um í lögum. Oft er um að ræða almannatryggingar sem eru í sama flokki og örorkubætur.

Þó hin nýja stefna hjá Netflix virðist vera gjafmild benda rannsóknir þó til þess að jafn sveigjanleg stefna og fyrirtækið býður upp á leiði til þess að fólk vinni meira en það hefði ella gert í kjölfar barneignar. Ástæðan er sögð vera sú að fólk er ekki viss um það hvernig yfirmenn og samstarfsfólk tekur í það að það taki sér fæðingarorlof.