Netverslun hefur verið í örum vexti síðustu vikur á meðan heimsfaraldur geisar. Heimkaup og Nettó hafa gefið út að metvelta hafi verið í netverslunum þeirra síðustu vikur.

Björgvin Ingi Ólafsson, sviðsstjóri Deloitte Consulting, segir talsverðan mun á því að reka hefðbundna matvöruverslun og svo netverslun. „Það er enginn að græða á netverslun með matvöru á Íslandi í dag,“ segir Björgvin.

Sjá einnig: Veltan meiri en á Cyber-Monday

„En ég held að það sé alveg ljóst að þeir sem ætla að vera í smásölu þurfa að finna út úr hvernig eigi að reka netverslun með arðbærum hættum,“ segir Björgvin. Hann bendir á að hagnaður Amazon stærsta netsölufyrirtækis heims, komi ekki nema að litlu leyti frá netverslun heldur að mestu frá skýjaþjónustu.

„Netverslun með matvöru sem byggir á innviðum venjulegrar verslunar eins og að láta starfsmenn taka vörur saman í verslunum sjálfum er ólíklegt að skila þeirri hagkvæmni sem þarf til að netverslun sé arðbær,“ segir Björgvin. Nettó hefur til að mynda látið starfsmenn taka vörur saman í verslunum sem viðskiptavinir geta sótt eða fengið sent.

Sjá einnig: „FinnTech“ framundan hjá Högum?

„Stærðarhagkvæmni í netverslun er mjög mikil svo treysta þarf á öflugt vöruhús til að lágmarka kostnað við tiltekt og dreifingu.“ Uppröðun vara í vöruhúsi geti til að mynda skilið á milli feigs og ófeigs.

„Hvort það taki tíu sekúndur eða þrjátíu sekúndur að ná í vöru mun ráða miklu um hvort netverslunin sé arðbær. Þeir sem finna út úr hvernig lágmarka má kostnað við tiltekt og dreifingu og haga vöruframboði með hagkvæmustum hætti munu hagnast á netverslun.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .