Nikkei-vístalan í japönsku kauphöllinni fór yfir 20.000 stig skömmu eftir að markaðir þar ytra opnuðu í dag, en það er í fyrsta skipti sem það gerist frá aprílmánuði árið 2000. BBC News greinir frá þessu.

Hæst fór vísitalan upp í tæp 20.005 stig, en hún hafði hins vegar lækkað um 0,15% við lokun markaða og stóð þá í 19.907 stigum. Gengi Nikkei-vísitölunnar hefur hækkað um 15% á þessu ári.

Þá hækkaði gengi hlutabréfa einnig í Kína og fór Shanghai Composite-vísitalan í fyrsta skipti yfir 4.000 stig frá árinu 2008. Í lok dagsins hafði vísitalan hækkað um 1,94% og stóð í 4.034 stigum.