
Á síðustu mánuðum ársins sem leið fór að bera á því að tóbaksfríir nikótínpúðar væru seldir hér á landi. Innflytjendur varanna segja að fyrstu mánuðirnir hafi farið ágætlega af stað. Samkvæmt tölum frá ÁTVR var árið í fyrra hið stærsta í sölu á íslensku neftóbaki.
„Fyrstu mánuðirnir hafa verið framar vonum. Við teljum okkur bjóða töluvert betri vöru en áður hefur verið í boði og fólk sem prófar hana hefur tekið vel í hana,“ segir Bjarni Freyr Guðmundsson eigandi Duflands ehf. en fyrirtækið flytur inn og selur vörumerkin Lyft, Zyn og Nordic Spirit.
Sjá einnig: Opna á nýjar tegundir neftóbaks
Undirbúningsvinna Duflands átti sér nokkurn aðdraganda en áður en innflutningur hófst voru forsvarsmenn til að mynda í samskiptum við við Lyfjaeftirlitið, Neytendastofu, Matvælastofnun og Tollstjóra. Niðurstaða þeirra samskipta var að ekkert stæði því í vegi að varan yrði flutt til landsins ef öll aðflutningsgjöld væru greidd. Bjarni segir enn fremur að fyrirtækið hafi fylgt fyrirmælum Neytendastofu með að upplýsa neytendur um innihald vörunnar með upplýsingum á heimasíðu verslunarinnar.
Í Viðskiptablaðinu í júní var sagt frá því að ÁTVR hygðist aflétta sölustöðvun á öðru neftóbaki en sínu eigin. Tóbaksbirgjar höfðu haft áhuga á að koma inn á markaðinn 2011, um það leyti sem neysla á tóbaki í vör færðist í aukana, en var synjað. Í erindi ÁTVR til heilbrigðisráðuneytisins kom fram margt benti til þess að „einungis hluti notenda tæki [íslenska neftóbakið] í nefið“. Með hliðsjón af samkeppnisréttarsjónarmiðum gæti sölustöðvunin ekki staðist og henni því aflétt. Bjarni segir að ekki hafi komið til greina að hefja innflutning eða framleiðslu á tóbaki í samkeppni við hið íslenska.
„Við höfum tekið okkur stöðu í baráttunni á móti tóbaki og höfum því ekki hafið innflutning á slíkum vörum þrátt fyrir að okkur hafi staðið það til boða. Þess í stað höfum við einblínt á það sem við teljum heilbrigðari vöru en tóbak,“ segir Bjarni.
Milli áranna 2018 og 2019 jókst sala ÁTVR á íslensku neftóbaki um rúm 3% en hafði áður tekið 18,7% stökk milli 2017 og 2019. Alls seldust rúmlega 46 tonn af íslensku neftóbaki í fyrra og er það söluhæsta ár ÁTVR frá upphafi hvað þessa vöru varðar. Sala á nikótínpúðum, í samkeppni við íslenska ruddann, hófst á síðasta ársfjórðungi 2019 og er ekki að sjá að innkoma þeirra á markaðinn hafi, enn sem komið er, haft teljandi áhrif á sölu ÁTVR. Sem fyrr segir eru hinar nýju vörur tóbaksfríar og því ekki háðar álagningu tóbaksgjalds og því umtalsverður verðmunur á vörunum.
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er: