Hinn norski Bjørn Richard Johansen, sem verið hefur forsætisráðherra til aðstoðar síðustu vikur, er á leið heim til Noregs. Hann hefur lokið störfum sínum hjá forsætisráðuneytinu.

Þetta kom fram í viðtali við Bjørn Richard í Sjónvarpinu í kvöld.

Bjørn Richard hefur undanfarnar vikur stýrt samræmdum almannatengslaaðgerðum fyrir forsætisráðuneytið. Hann hefur meðal annars aðstoðað ráðuneytið í samskiptum sínum við erlenda og innlenda fjölmiðla.

Greint var frá því í Viðskiptablaðinu um miðjan október sl., og haft eftir heimildarmanni blaðsins, að Norðmaðurinn hefði meðal annars ráðlagt stjórnvöldum að halda blaðamannafundi síðdegis, til að fjölmiðlar hefðu minni tíma til að vinna úr upplýsingum sem þar kæmu fram.

Bjørn Richard sagði í samtali við Sjónvarpið í kvöld að blaðamannafundirnir hefðu verið haldnir síðdegis til að hægt væri að miðla því sem gerst hefði um daginn, í lok dags.

Bjørn Richard var yfirmaður fjárfestatengsla hjá Glitni í Noregi en var þar áður aðstoðarforstjóri alþjóðlega almannatengslafyrirtækisins Burson-Marsteller í Noregi.