Þróunin á markaðshlutdeild á árunum áður en Nova kom inn á markaðinn sýnir að hann hafi borið merki fákeppni, að sögn Liv Bergþórsdóttur, forstjóra Nova. „Í nokkur ár var Síminn með 60% markaðshlutdeild og Vodafone með 40%. Núna erum við með 26% hlutdeild á farsímamarkaði, Síminn er með ríflega 40% og Vodafone með u.þ.b. 30%. Samkeppnin jókst því mikið með innkomu Nova á þennan markað. Síminn virðist þó hafa meira upp úr sínum viðskiptavinum því hann er með um 50% smásölutekna á farsímamarkaði á meðan Vodafone er nokkuð undir 30% og Nova er í kringum 20%.“

Liv segir að þetta skýrist að stærstum hluta af því hve umfangsmikill Síminn er á fyrirtækjamarkaði, en þar eru tekjurnar meiri en á öðrum mörkuðum. Hún segir það einnig áhugavert að viðskiptavinir Nova nota þjónustu fyrirtækisins að meðaltali mun meira en viðskiptavinir hinna fyrirtækjanna tveggja. „Um helmingur allra sms-skilaboða eru send úr Nova-símum og viðskiptavinir okkar tala meira í farsímann — nota fleiri mínútur að meðaltali á mánuði en viðskiptavinir hinna. Það skýrist m.a. af því að öll símtöl innan Nova-kerfisins eru ókeypis sem og sms-skilaboð milli Nova farsíma. Þá nota viðskiptavinir Nova netið í farsímanum mun meira en viðskiptavinir samkeppnisaðilanna enda áhersla okkar á þennan nýja möguleika farsímans mikil.“

Ítarlegt viðtal við Liv Bergþórsdóttur er að finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.