Kínverska hagkerfið hefur hægt á sér að undanförnu vegna strangra Covid-takmarkana, en yfirvöld hafa haldið sig við hina svokölluðu núll-Covid stefnu.

Smásala dróst óvænt saman um 0,5% milli ára í október. Það kemur sérstaklega á óvart í ljósi þess að september og október eru þekktir fyrir að vera sérstaklega góðir fyrir smásölu í landinu í samanburði við aðra mánuði ársins.

Til samanburðar jókst smásala um 2,5% í september, en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir 0,7% vexti í október.

Hagvöxtur mældist 3% í Kína á fyrstu níu mánuðum ársins og er fastlega gert ráð fyrir því að opinbert markmið um 5,5% hagvöxt á árinu 2022 muni ekki nást.