*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Innlent 25. september 2017 12:24

Ný vefsíða ber saman íbúðarlánin

Ný vefsíða, herborg.is, reiknar út hverjir bjóða bestu kjörin á íbúðarlánum og heldur utan um hvaða reglur gilda um lánveitingu hjá hverjum og einum.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur, setti í dag vefsíðuna herborg.is í loftið til að aðstoða fólk í íbúðarlánaleit að finna bestu lánin fyrir sig. Viðskiptablaðið fjallaði í síðustu viku um íbúðalánamarkaðinn og þau lán sem í boði eru auk þess að fjalla um þær skorður sem settar hafa verið á endurfjármögnun lána í þeim tilgangi að auka skuldsetningu. Hægt er að fara á vefsíðuna með því að smella hér.

Björn Brynjúlfur segir vinnuna við vefsíðuna hafa hafist nokkru áður en umfjöllun Viðskiptablaðsins birtist í síðustu viku. Hugmyndin kviknaði hins vegar fyrir löngu. „Þegar ég keypti íbúð sjálfur bjó ég til excelskjal þar sem ég hélt utan um þetta fyrir sjálfan mig. Ég sagði vinum mínum frá skjalinu sem þeir báðu um að fá sent og sendu svo vinum sínum. Þetta vatt því upp á sig og ég ákvað að setja þetta á vefinn svo allir geti notið góðs af,“ segir Björn.

Í fréttatilkynningu frá Herborgu segir að „Vextir á húsnæðislánum hjá stóru bönkunum þremur eru allt að 40% hærri en hjá lífeyrissjóðum. Þessi munur veldur því að vaxtakostnaður getur orðið nokkrum milljónum króna hærri hjá þeim sem tekur lán hjá banka samanborið við lífeyrissjóð.

Sjö milljón króna aukakostnaður af Íslandslánum

Til að taka dæmi um hve miklu munar má bera saman svokölluð Íslandslán, verðtryggð lán með breytilegum vöxtum til 40 ára. Sé tekið slíkt lán fyrir 24 milljónir króna í dag eru heildarafborganir sjö milljónum krónum hærri hjá einum af þremur stóru bönkunum samanborið við hagstæðasta lífeyrissjóðslánið. Mismunurinn jafngildir 15 þúsund króna afborgun á mánuði.

Þörf á aukinni meðvitund um vaxtakostnað

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur og stofnandi Herborgar.is, bjó til vefsíðuna til að auka meðvitund fólks um öll lán sem eru í boði: „Þeir sem kaupa íbúð eða flytja taka í mörgum tilfellum lán hjá sínum viðskiptabanka án þess að vita af hagstæðari valkostum. Lífeyrissjóðslán bera í dag lægri vexti en bankalán og þau eru aðgengileg langflestum Íslendingum. Þessi munur getur haft mikla þýðingu fyrir heimilisbókhaldið.“

Ný löggjöf auðveldar endurfjármögnun

Fyrir marga sem eru með húsnæðislán hjá bönkunum í dag borgar sig að endurfjármagna lánið hjá lífeyrissjóði. Ný lög um fasteignalán til neytenda sem tóku gildi fyrr á þessu ári lækkuðu lántökugjöld verulega og takmörkuðu einnig uppgreiðslugjöld. Því er hagkvæmara en áður að skipta yfir í lán sem bera lægri vexti.

Tugþúsunda sparnaður á mánuði mögulegur

Björn hvetur þá sem eru með húsnæðislán til að heimsækja Herborg.is og bera vextina þar saman við þeirra eigin lán: „Ég hef bent nokkrum sem eru með bankalán á síðuna og í öllum tilfellum fann viðkomandi hagstæðara lán hjá lífeyrissjóði sem hægt var að skipta í. Afborganirnar hjá einum lækkuðu um 25 þúsund krónur á mánuði við það að skipta.“

Áhugasamir geta heimsótt vefsíðuna á slóðinni http://www.herborg.is. Á síðunni er hægt að bera saman vexti og gjöld á öllum fasteignalánum á Íslandi.“