Rekstartap Nýherja, fyrir skatta og fjármagnsgjöld (EBITDA), á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam tæpum 8 milljónum króna samanborið við hagnað upp á rétt rúmar 145 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Heildarhagnaður Nýherjasamstæðunnar á  fjórðungnum nam þó rétt rúmum 2,6 milljónum króna en tap á fyrsta ársfjórðungi í fyrra nam tæpum 209 milljónum króna.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Nýherja en í samanburði við fyrsta ársfjórðung 2008 er vakin athygli á því í tilkynningunni að TM Software hf. og Marquardt & Partners A/B féllu undir rekstur Nýherja hf. í febrúar 2008.

Sala á vöru og þjónustu nam rúmlega 3.558 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 3.427 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Tekjur hafa aukist um 4% frá fyrsta ársfjórðungi 2008.

Laun og launatengd gjöld námu 1.563 milljónum króna en voru 1.369 milljónir króna fyrir sama tímabil 2008.   Rekstrarkostnaður félagsins nám 488 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi en var 342 milljónir á sama tíma í fyrra.

Hrein fjármagnsgjöld voru tæpar 76 milljónir króna í samanburði við 514 milljónir króna árið á undan.

Þá kemur fram í tilkynningunni að heildareignir í lok tímabilsins voru 9.296 milljónir króna og hafa lítið breyst frá áramótum.  Langtímaskuldir hafa lækkað úr 2.669 milljónum króna í 2.595 milljónir frá árslokum. Skammtímaskuldir hafa lækkað frá áramótum úr 5.319 milljónum króna í  4.737 milljónir króna. Eigið fé í lok mars 2009 var 1.964 milljónir króna í lok tímabilsins.

Aðgerðir til að lækka rekstrarkostnað að skila sér, segir forstjórinn

Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja segir afkomu samstæðunnar hafa batnað umtalsvert frá fjórða ársfjórðungi 2008.

„Þær fjölþættu aðgerðir sem gripið hefur verið til í því markmiði að lækka rekstrarkostnað samstæðunnar vegna sviptinga og óvissu í íslensku efnahagsumhverfi eru komnar fram að hluta,“ segir Þórður í tilkynningunni en í febrúarmánuði kom til framkvæmda 10% launa-lækkun hjá öllum starfsmönnum Nýherja hf. og dótturfélaga á Íslandi.

Þá segir Þórður að starfsfólki hafi fækkað um 13,3% miðað við meðalfjölda stöðugilda á síðasta ári og það komi niður á tækni-, hugbúnaðar- og þróunarstörfum.

„Einnig hefur verkefnum í hugbúnaðarþróun verið slegið á frest. Gert er ráð fyrir að fyrrnefndar aðgerðir muni skila sér enn frekar í lækkun á rekstrarkostnaði á öðrum ársfjórðungi,“ segir Þórður í tilkynningunni.