Kaldalón, sem í dag var skráð á First North markað Kauphallar Íslands, var rekið með 32 milljóna króna hagnaði á fyrri helmingi ársins miðað við 6 milljóna króna hagnað á sama tímabili fyrir ári.

Kaldalón er fasteignaþróunarfélag sem er með eigið fé upp á 3,7 milljarða króna og eignir upp á 4,6 milljarða króna en skuldirnar nema um 900 milljónum króna. Félagið var stofnað árið 2017 og hefur fjárfest í lóðum á sjö stöðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem gert er ráð fyrir um 900 íbúðum.

Sjá einnig: Kaldalón komið til að vera

Jónas Þór Þorvaldsson framkvæmdastjóri Kaldalóns, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í vikinni að félagið stefni á að hafa 5-7 verkefni í gangi á hverjum tíma.  „Félagið er komið til að vera og við sjáum fyrir okkur að komast í framleiðslu á um 150- 200 íbúðum á ári á næstu tveimur árum og halda þannig hlutunum áfram jafnt og þétt.“

Sjá einnig: Tíu milljarða uppbygging við höfnina í uppnámi

Meðal hluthafa í Kaldalóni eru Þórarinn A. Sævarsson & Gunnar Sverrir Harðarson sem saman eiga nær 30% hlut í Kaldalóni, Kvika banki sem á 10% hlut og Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson sem eiga 8,2% hlut í gegnum félagið 24 Development Holding ehf.