Gerður hefur verið samningur á milli JCB Sales Ltd. og eigenda Vélfangs ehf. að fyrirtækið taki að sér sölu og þjónustu fyrir JCB vinnuvélar og tæki á Íslandi. Með þessum samningi er tryggt að eigendur JCB véla og tækja á Íslandi fái nauðsynlega varahluta- og verkstæðisþjónustu í framtíðinni segir í tilkynningu.

JCB er einn af þremur stærstu vinnuvélaframleiðendum í heiminum, hjá JCB starfa um 7000 manns, fyrirtækið selur framleiðslu sína í 150 löndum í gegnum 1.500 vélaumboð. JCB var stofnað í Englandi fyrir 64 árum og hefur í gegnum árin fjárfest gríðarlega í vöruþróun og hönnun sem hefur gert JCB að leiðandi fyrirtæki á sínu sviði. JCB framleiðir breiða vörulínu eða allt frá minnstu handverkfærum upp í stórvirkar 50 tonna vinnuvélar ásamt tækjum til landbúnaðar alls yfir 300 einstakar tegundir véla.

Í tilkynningu segir að samningurinn styrkir stöðu beggja fyrirtækja á íslenska markaðnum en óhætt er að segja að enginn hluti atvinnulífsins hafi orðið jafnmikið fyrir barðinu á efnahagshruninu eins og bygginga- og jarðvinnuverktakar. Vélfang er með aðsetur  í Reykjavík

Vélfang ehf. var stofnað árið 2004 og er með umboð fyrir dráttarvélar og landbúnaðartæki frá m.a . Fendt, Claas, Kuhn, Kverneland og Krampe.  Fyrirtækið sinnir einnig ýmsum sérþörfum viðskiptavina sinna t.d. á sviði kornþurrkunar,  moltugerðar fyrir sveitarfélög og útvegar einnig varahluti í allar tegundir landbúnaðar- og vinnuvéla.  Vélfang var valið fyrirtæki ársins hjá VR í flokki minni fyrirtækja árin 2007-2008 og er fyrirmyndarfyrirtæki VR árið 2009.