Út er komið nýtt verðmat greiningar Íslandsbanka á KB banka. Niðurstaða verðmatsins er 360 ma.kr. sem jafngildir 549 krónum á hlut og hækkar úr 514 frá síðasta verðmati. "Við mælum með að fjárfestar haldi bréfum í KB banka til lengri tíma litið. Ráðgjöf okkar til skemmri tíma, þ.e. til næstu 3-6 mánaða, er að yfirvega bréfin í vel dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar er bent á að tekjuskipting KB banka breyttist verulega með kaupunum á danska bankanum FIH. Í stað þess að meginhluti tekna skiptist jafnt á þrjár helstu tekjustoðirnar líkt og verið hefur reiknum við með að til frambúðar komi 46% hreinna rekstrartekna í formi hreinna vaxtatekna, 27% sem hreinar þóknunartekjur og 23% sem gengismunur af hlutabréfum, skuldabréfum og gjaldeyristengdum eignum og skuldum. Af einstökum tekjusviðum bankans er arðsemi hæst í Marksaðviðskiptum og Fyrirtækjaráðgjöf enda er undirliggjandi tekjumyndun í formi þóknana talsverð og gengismunur hlutfallslega hár eins og á undanförnum árum.

"Arðsemi Viðskiptabankasviðs er lægst en vegna tiltektar í lánasafni og innleiðingar fasteignalána hafa afkomuhorfur þess sviðs batnað. Til lengri tíma litið er gert ráð fyrir að kostnaðarhlutfall KB banka verði 46%. Framlag í afskriftareikning sem hlutfall af útlánum er áætlað 0,5% til lengri tíma litið en þetta hlutfall var 0,34% í síðasta verðmati. Gerð er 10,2% nafnávöxtunarkrafa á frjálst sjóðstreymi en var 10,5% í síðasta verðmati. Verðmatið byggir á rekstrarhorfum fyrir núverandi rekstur og er ekki reiknað með ytri vexti. Athygli er vakin á greiningu á næmi verðmatsins fyrir breytingum á helstu forsendum," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.