Síðustu ár hefur verð á kjöti og eggjum hækkað miklu meira en sem nemur hækkun vísitölu neysluverðs. Hækkanirnar eru það miklar að þær eru algjörlega óásættanlegar út frá hagsmunum neytenda, að mati Jóhannesar Gunnarssonar, formanns Neytendasamtakanna. Jóhannes skrifar um hækkanirnar á vefsíðu samtakanna .

Samkvæmt gögnum Hagstofunnar hefur vísitala neysluverðs hækkað um 12,6% frá maí 2010 til maí 2013. Á sama tíma hafa matur og drykkjavörur hækkað um 14,7%. Af einstökum kjöttegundum hefur nautakjöt hækkað mest, eða um 30,%, fuglakjöt hefur hækkað um 29,1%, svínakjöt um 28,7% og lambakjöt um 27,1%. Þá hækkuðu egg um 30,3%.

„Undirritaður hefur undir höndum yfirlýsingu frá endurskoðanda Haga sem m.a. rekur Bónus og Hagkaupsverslanirnar. Þar kemur fram að verðhækkanir hjá framleiðendum svínakjöts eru í raun enn meiri. Ef litið er til tímabilsins mars 2010 - mars 2013 hafa grófbútaðir svínaskrokkar hækkað um 63,7% í heildsölu á þessu tímabili. Sem betur fer hefur þessi hækkun því ekki skilað sér nema að hluta til neytenda. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hækkaði verð á svínakjöti til neytenda að meðaltali um 34,7% í verslunum á sama tímabili,“ segir í greininni.

Jóhannes telur fulla þörf á að samkeppnisyfirvöld rannsaki miklar hækkanir. Full ástæða sé til að ætla að í krafti aukinnar fákeppni hafi aðilar misnotað aðstöðu sína með mun meiri verðhækkunum en almennt hafa orðið á öðrum vörum. „Það er hvorki boðlegt né ásættanlegt að framleiðendur og heildsalar geti í krafti fákeppni og jafnvel einokunar svínað endalaust á neytendum,“ segir í greininni.