Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í ræðu í gær að hann hygðist halda áfram að þrýsta á bandaríska þingið að hækka lágmarkslaun í landinu.

„Bandaríkin eiga skilið launahækkun. Frá því ég tók við embætti hefur bandarískur efnahagur og staða launþega batnað,“ sagði Obama, og bætti við að nauðsynlegt væri að jafna launamun kynjanna.

Ræða Obama kom í kjölfar þess að gefnar voru út tölur sem sýndu að atvinnuleysi í landinu hefur lækkað um 1% og landsframleiðsla aukist á öðrum ársfjórðungi.

Repúblikanar hafa meirihluta í bandaríska þinginu og felldu tillögu fyrr á þessu ári þess efnis að hækka lágmarkslaun í landinu. Telja þeir að slík hækkun myndi hafa slæm áhrif í för með sér og leiða til fækkunar starfa í landinu.