Evrópski seðlabankinn greindi frá þeirri ákvörðun í dag að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum í 0,5%. Vextir bankans hafa aldrei verið lægri þrátt fyrir að hjól hagkerfis evrusvæðisins séu tekin að snúast á nýjan leik.

Breska ríkisútvarpið (BBC) rifjar upp í tengslum við umfjöllun um vaxtaákvörðunina að evrusvæðið hafi kvatt kreppudrauginn í bili enda mælst 0,3% hagvöxtur á evrusvæðinu á öðrum ársfjórðungi. BBC rifjar jafnframt upp að seðlabankastjórinn Mario Draghi hafi sagt vaxtastig verða lágt um óákveðinn tíma.

AP-fréttastofan bætir því við að ekki séu líkur á að stýrivextir verði hækkaðir á nýjan leik fyrr en hugsanlega þegar atvinnuleysi verður komið niður í 6,5%. Það er nú yfir 13%.