Staðan í efnahagslífinu er viðkvæm. Þrátt fyrir að spáð sé frekari hagvexti á næstu árum þá mun vöxturinn eiga sér stað innan hafta. Hætta er á að verðlagning eigna sé brengluð og undirstöður ekki traustar og því geti sagan endurtekið sig og hagkerfið ofhitnað, keyrt áfram af innlendri eftirspurn, að mati efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA).

Efnahagssviðið fjallar um stöðu mála hér í kjölfar þeirra ákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabankans að halda stýrivöxtum óbreyttum í 6%. Þetta var 13. vaxtaákvörðunarfundurinn í röð þar sem engin breyting var gerð á vaxtastigi.

Í umfjöllun efnahagssviðs SA segir:

„Efnahagsslakinn er óðum að hverfa og verðbólguhorfur gætu því snögglega breyst til hins verra. Landsframleiðslutölur á fyrsta fjórðungi ársins eru staðfesting þess efnis að samsetning hagvaxtar sé að breytast. Sú þróun sem nú á sér stað endurspeglar mikilvægi þess að hið opinbera sýni aukinn aga sem mótspyrnu gegn innlendum neysluvexti komandi árum.“