Ólafur Ólafsson, sem var í síðustu viku dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Al-Thani málinu, segir stjórnmálamenn hér á landi hafa gert bankageirann að blóraböggli í efnahagshruninu hér á landi í stað þess að líta til eigin mistaka. Þetta segir hann í samtali við Reuters fréttastofuna.

„Ég held að dómarar málsins hafi fyrst sammælst um dómsniðurstöðuna og eftir það skrifað dóminn,“ segir Ólafur í samtali við Reuters.

Ólafur segir einnig að Ísland sé mjög lítið land og múrarnir milli stjórnmála- og embættismanna séu oft þunnir. „Stjórnmálamennirnir ákváðu að leggja alla áherslu á bankageirann í stað þess að rannsaka hvað fór úrskeiðis í hagkerfinu, sem þeir bera ábyrgð á.“

Ólafur býr í Sviss og starfar sem stjórnarformaður Samskipa, en hann segist munu snúa aftur til Íslands þegar hann þarf að afplána dóm sinn. „Það er aldrei gott að stinga höfðinu í sandinn. Maður verður að mæta öllum þeim áskorunum sem lífið kastar að manni,“ segir Ólafur.

Hann segist jafnframt ætla að kæra dóminn til Mannréttindadómstólsins en er þó ekki vongóður um að dómstóllinn taki mál hans til efnismeðferðar.