Í febrúar hefur verð á olíu á heimsmörkuðum lækkað um 8,2% í krónum talið, segir greiningardeild Íslandsbanka.
Frá áramótum hefur olíuverð lækkað um 4,8% í krónum þrátt fyrir tæplega 1,5% gengislækkun krónu á tímabilinu.

Framboð á olíu er talsvert og framleiðsla OPEC í hámarki, segir greiningardeildin. Þrátt fyrir lítilsháttar lækkun á undanförnum vikum er olíuverð nú mjög hátt í sögulegu samhengi og má gera ráð fyrir að það verði þannig áfram á komandi mánuðum.

Ekki er gert ráð fyrir að verð á olíu komi til með að lækka verulega á komandi mánuðum þar sem talsverð spenna ríkir enn vegna kjarnorkuáætlunar Írana, segir greiningardeildin og bætir við að aukin spurn eftir olíu frá Kína og Indlandi heldur einnig olíuverði háu.