*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 3. febrúar 2019 12:03

Ólst upp í bröggum í Vesturbænum

Helgi í Góu segir of mikið basl að fá lóðir, líka fyrir atvinnurekstur. Ekki eigi að þurfa greiðvirkni stjórnmálamanna til.

Höskuldur Marselíusarson
Helgi Vilhjálmsson í Góu segir að sex ára bið eftir nýjustu lóðinni hafi leyst á sólarhring þegar hitti mann sem hann hafði gert smá greiða. Hann segir venjulega basl að reyna að fá hluti í hvelli hjá stjórnmálamönnum.
Haraldur Guðjónsson

„Ég er nú uppalinn í bröggum vestur í bæ, og það virðist vera sem það sé nákvæmlega sama ástand nú og var þá, en þá vorum við svo heppin að Ameríkanarnir og Bretarnir voru farnir úr bröggunum. Þá gat ungt fólk gert sér litlar íbúðir úr þessu, en nú eru engir braggar,“ segir Helgi Vilhjálmsson, kenndur við sælgætisgerðina Góu sem sagði meðal annars frá upphafi sælgætisgerðarinnar í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið

Helgi hefur löngum haft mikinn áhuga á þjóðmálunum, og segir að leysa eigi átökin á vinnumarkaði með því m.a. að draga til baka 40% hækkun launatengdra greiðslna til lífeyrissjóðanna. Hann gefur lítið fyrir það sem fram kemur í skýrslu átakshóps forsætisráðherra um húsnæðismál um að mikið verði byggt á næstu árum. 

„Þeir sögðu þetta líka þá, en þá úthlutuðu þeir skemmtilegum lóðum í raðhúsum á Bústaðaveginum, svo ungt fólk gæti byggt. Til að toppa þetta svo allt, þá sáu þessir ágætu menn hve góðar lóðir þetta voru þarna vestur í bæ undir bröggunum og þá var allt í einu hægt að byggja strax þrjár blokkir sem heita Meistaravellir. Það að ekki sé hægt að fá lóðir í dag er öllum bæjarfélögunum hérna á höfuðborgarsvæðinu að kenna, það er eitthvað að þar. Og fyrst við erum að tala um bragga, þá sýnir Braggamálið í Nauthólsvíkinni hvað vitleysan er mikil á mörgum stöðum.“

Tók 15 ár að ná eignamynduninni í einbýlishúsi

Einn þeirra sem unnu lengi með Helga í Góu var Karl Ágústsson sem stofnaði sælgætisgerðina með honum, en eftir nokkur ár með honum í rekstrinum vildi hann selja sig út því hann vildi byggja. „Hann sagði mér að hann væri búinn að fá lóð uppi í Árbæ til þess að byggja einbýlishús, en hann sagðist áfram ætla að skrifa fyrir mig bréfin, enda kann ég ekkert að skrifa á ensku.

En ég hef mjög gaman af tölum, og ég verðlagði einbýlishúsið og svo karamelluvélina, og ég fann það út að það tók mig fimmtán ár að ná þessum einbýlishúskofa. Það er sá tími sem það tók fyrir minn rekstur að verða jafnverðmætur og húsið, það hækkaði fljótar í verði en karamelluvélin, iðnfyrirtækið og reksturinn sjálfur, en svo fór ég helvíti skart fram úr honum eftir það. Karl var samt hægri hönd mín alla tíð og vann hjá mér til sjötugs.“ 

Stoppaður í að byggja ódýrar íbúðir án útborgunar

Helga finnst ótækt að ungt fólk eigi erfitt með að fá að byggja sjálft yfir sig vegna skorts á lóðum í dag. „Húsnæðisvandinn verður ekkert leystur meðan við getum ekki boðið upp á nóg af lóðum og það er nóg land, það þarf ekki annað en að líta hérna út um gluggann. Það vantar að fólk geti byggt sér litlar íbúðir, enda margt breyst frá því að ég var ungur, nú eru allir lausir og liðugir til 25 eða 35 ára. En það er allt stoppað.

Ég fékk þá hugmynd í kollinn, fyrst ég átti lóð á Völlunum, að stækka húsið sem ég ætlaði að byggja og gera margar litlar íbúðir, en þeir höfðu ekki áhuga á þessu. Það er eitthvað að, þegar jólasveinum eins og mér er ekki leyft að djöflast og gera sniðuga hluti, í stað þess að skammta lóðum og jafnvel stoppa menn af. Ég vildi gera fimmtán litlar íbúðir sem hefðu átt að kosta 15 milljónir hver, það hefðu allir getað keypt þetta.

Ég hefði sennilega getað búið um það þannig að fólk hefði ekkert þurft að borga út, heldur greiða bara 150 þúsund krónur á mánuði. Stefnan á auðvitað að vera að tryggt sé að það sé nóg til af lóðum, þær þurfa væntanlega að kosta það sem kostar að hafa þær til, en þetta eiga ekki að þurfa að vera okurlóðir. Í dag eru menn farnir að þurfa að keyra frá Hveragerði og Selfossi, ég er til dæmis með mann í vinnu hérna sem flutti til Hveragerðis og keyrir á hverjum degi.“ 

Þurfti greiðasemi stjórnmálamanna

Helgi segir það einnig hafa verið vandamál hjá honum í rekstrinum að fá lóðir. „Það er allt of mikið basl að fá lóðir, maður þarf alltaf að berjast um þær. Einhvern tíman þarna á milli 1970 og 80 byrja ég að leita að nýrri lóð, en þá var ég með starfsemina úti á Granda. Þá var sagt að ég gæti fengið nóg af húsnæði, en ég gat ekkert fengið, þó ég auglýsti, fyrr en ég gat keypt sökkul á Reykjavíkurvegi 72 í Hafnarfirði. Þá var nú gert grín að mér að ætla að fara til Hafnafjarðar, en síðar fékk ég úthlutað í Bæjarhrauni 24 í Hafnarfirði, þrjár lóðir saman, þeir gátu ekki neitað mér fyrst ég var með iðnað, en það virðist útilokað að fá lóðir, hvort sem það er fyrir einstaklinga eða fyrirtæki.

Árið 2000 byrjaði ég svo að reyna að fá þessa lóð, hérna í Garðabæ, en Hafnarfjörður átti hana, hafði fengið hana upp í víxilskuld sem einhverjir byggingarbraskarar gátu ekki staðið í skilum með. Ég fer og sæki um lóðina, en það er sama baslið, það er ekkert hægt að fá í hvelli hjá þessum stjórnmálamönnum. Það var ekki fyrr en ég hitti ágætismann sem ég hafði gert smá greiða og ég sagði honum að það væri alltaf sama sagan með þessar blessuðu lóðir, ég væri kominn með gat á buxnaskálmarnar að bíða eftir þessari lóð í sex ár, og þá liðu 24 tímar og þá komu menn úr Hafnarfirði og gengu frá þessu og gat ég þá flutt í sjötta sinn.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.