Olíuframleiðsluríki innan samtaka OPEC búast ekki við miklum verðbreytingum á olíu út næsta ár og eftirspurn muni aðeins aukast um 1,2%. Samkvæmt nýrri mánaðarlegri skýrslu OPEC um olíumarkaðinn mun mikil birgðasöfnun í heiminum og aukin olíuframleiðsla samfara minni efnahagsvexti halda aftur af verðhækkunum.

Eftirspurnin eftir olíu í heiminum á yfirstandandi ári er áætluð 85,5 milljónir tunna á dag. Um 56,76 milljónir tunna koma frá löndum utan OPEC olíuframleiðsluríkjanna, en 28,74 milljónir tunna koma frá OPEC ríkjum. Spár OPEC ganga út frá að eftirspurnin á næsta ári aukist um 1 milljón tunna á dag og fari þá í 86,55 milljónir tunna.

Í úttekt OPEC er búist við minni efnahagsvexti 2011 en 2010 á öllum svæðum heims nema á evrusvæðinu. Að meðaltali verði hann 3,7% 2011 í stað 3,9% á yfirstandandi ári. Á evrusvæðinu er langminnstur efnahagsvöxtur í dag eða 0,8%. Spáin gengur út á að efnahagsvöxturinn þar fari ekki nema í 0,9% á árinu 2011. talað er um að margvísleg vandamál blasi enn við efnahagskerfi heimsins. Þar sé m.a. um að ræða mikið atvinnuleysi innan OECD ríkjanna sem leiði til minni einkaneyslu. Vandræði séu enn á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum og í mörgum ríkjum valdi miklar skuldir vandræðum.