*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 7. september 2020 14:17

Opna netverslun í smærri byggðarlögum

Nettó opnar á netverslun í Búðardal, Reykjahlíð, Hólmavík og á Flúðum sem hægt verður að sækja í Krambúðirnar.

Ritstjórn
Gunnar Egill Sigurðsson er framkvæmdastjóri verslunarsviðs Nettó.
Haraldur Guðjónsson

Nettó í samstarfi við Krambúðina hefur ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum í Búðardal, Reykjahlíð, Hólmavík og Flúðum upp á að fá vörur sendar úr netverslun Nettó. Þetta er gert í tilraunaskyni til að mæta óskum viðskiptavina verslananna. Íbúum sveitarfélaganna gefst kostur á að panta vörur í gegnum netverslun Nettó og fá þær afhentar í Krambúðum á svæðinu.

Sendingar eru viðskiptavinum að kostnaðarlausu versli þeir fyrir 15 þúsund krónur eða meira annars bætist við 1.490 króna sendingargjald. Til að byrja með verður eingöngu hægt að fá þurrvörur sendar en unnið er hörðum höndum að því að bæta aðstöðu í Krambúðunum á viðkomandi stöðum svo einnig hægt sé að senda kæli- og frystivörur.

„Við höfum verið í góðum samskiptum við íbúa sveitarfélaganna og erum sífellt að leita leiða til að bæta þjónustu okkar. Með netverslun Nettó gefst okkur tækifæri á að bjóða íbúum á þessum svæðum upp á enn hagstæðari verð í heimabyggð,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.  

„Vöruverð hefur lækkað um 15-30% í þeim öllum þeim verslunum sem Samkaup hafa tekið yfir. Markmið okkar er bjóða upp á sem hagkvæmastar vörur fyrir viðskiptavini okkar. Samkaup líta á það sem samfélagslega skyldu sína að halda úti verslun og störfum á landsbyggðinni og eru verslanir okkar hlutfallslega stórir vinnustaðir í sumum þessara sveitarfélaga.“

Íbúum sveitarfélaganna býðst þjónustan frá og með deginum í dag, mánudeginum 7. september. Pantanir þurfa að berast fyrir kl. 12.00, degi fyrir afhendingu, og er afgreiðslutími mismunandi eftir bæjarfélögum.