Hlutabréfaverð Origo hækkaði um 5% í 133 milljóna króna viðskiptum í dag og er nú 12,5% hærra en í byrjun vikunnar. Gengi Origo stóð í 63 krónum við lokun Kauphallarinnar og er tvöfalt hærra en á sama tíma í fyrra.

Sjá einnig: Akta keypti 3,8% í Origo í ágúst

Mesta veltan var með hlutabréf Íslandsbanka sem hækkuðu um 0,8% í 786 milljóna króna viðskiptum. Gengi Íslandsbanka náði nýjum hæðum í 124 krónum á hlut, en dagslokagengi bankans fór síðast hæst í 123,5 krónur dagana 16. og 17. ágúst. Hlutabréfaverð Íslandsbanka er nú 57% hærra en í hlutafjárútboðinu í júní. Gengi Arion banka náði einnig methæðum í 175,5 krónum eftir 0,9% hækkun í dag.

Útgerðarfélögin Brim og Síldarvinnslan lækkuðu bæði í viðskiptum dagsins. Brim lækkaði um 3,8%, þó í aðeins 56 milljóna veltu, og Síldarvinnslan um 0,5% í 154 milljóna viðskiptum. Í morgun bárust fréttir af því að stéttarfélög sjómanna slitu kjaraviðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).