Sjóðastýringarfyrirtækið Akta sjóðir hf. er komið með yfir 5% hlut í Origo. Samkvæmt flöggunartilkynningu keypti Akta 1,15 milljónir hluti í Origo fyrir um 62,7 milljónir króna á miðvikudaginn síðasta, ef miðað er við dagslokagengi Origo þann dag. Í kjölfar viðskiptanna átti Akta 21,9 milljónir hluti í Origo en markaðsvirði eignarhlutarins nemur 1,3 milljörðum króna í dag, eftir að upplýsingatæknifyrirtækið náði sínu hæsta dagslokagengi frá skráningu í gær .

Ljóst er að fjárfesting Akta í hlutabréfum Origo hefur að mestu leyti átt sér stað í sumar en félagið komst ekki á lista yfir stærstu hluthafa upplýsingatæknifyrirtækisins í lok júní. Mánuði síðar var Akta með 1,3% hlut, nánar tiltekið 5,55 milljónir að nafnvirði. Akta keypti því nærri 3,8% hlut í Origo frá lok júní til 1. september.

Miðað við lista yfir stærstu hluthafa Origo þann 23. ágúst þá fór Akta með 2,4% hlut eða um 10,4 milljónir að nafnvirði. Á tímabilinu 23. ágúst til 1. september keypti Akta því um 11,4 milljónir hluti eða um 2,6% hlut í Origo. Sé miðað við meðalgengi hlutabréfa Origo á þessum átta viðskiptadögum má áætla að Akta hafi samtals keypt hlutinn fyrir um 600 milljónir króna.