Nasdaq Iceland hefur samþykkt beiðni Origo um að hlutabréf félagsins verði tekin úr viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Síðasti viðskiptadagur með hlutabréf Origo verður ‏þriðjudagurinn 25. apríl næstkomandi, að því er kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni.

Framtakssjóðurinn Umbreyting II, í stýringu hjá Alfa Framtaki, eignaðist nýlega 63% hlut í Origo og lagði í kjölfarið fram tillögu fyrir aðalfund upplýsingatæknifyrirtækisins um afskráningu. Tillagan var samþykkt með 94% atkvæða.

Í aðdraganda afskráningarinnar hefur Origo lagt fram almennt tilboð til hluthafa í félaginu um kaup á allt að 25.000 hlutum á genginu 87 krónur á hlut gagnvart hverjum hluthafa‏‏. Tilboðið tók gildi í gær og gildistíma þess lýkur kl. 17 þann 11. apríl.