*

mánudagur, 26. október 2020
Innlent 20. september 2020 17:03

Orkar tvímælis gagnvart stjórnarskrá

Tímagjald sem umsjónarmönnum með nauðasamningsumleitunum er ætlað er langt undir hefðbundinni gjaldskrá lögmanna.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Nokkurrar óánægju gætir meðal lögmanna með reglur dómstólasýslunnar um þóknun til umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum við fjárhagslega endurskipulagningu. Tímagjaldið sem reglurnar áskilja er talsvert lægra en hefðbundið tímagjald lögmanna. Formaður Lögmannafélags Íslands (LMFÍ) telur reglurnar orka tvímælis gagnvart stjórnarskrárvörðum rétti manna til að semja um kaup sitt og kjör.

Í vor voru samþykkt á þingi lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja. Lögin fela í sér heimild handa fyrirtækjum til að sækja um svokallað greiðsluskjól en á meðan ber þeim að endurskipuleggja rekstur sinn. Við þann gjörning ber fyrirtæki að hafa sér innan handar aðstoðarmann, sem ýmist er endurskoðandi eða lögmaður, og greiðir honum samkvæmt samkomulagi. Gangi endurskipulagning ekki eins og vonir stóðu til getur félag látið reyna á nauðasamninga en þá ber héraðsdómi að skipa umsjónarmann með því ferli. Sá tekur þóknun samkvæmt reglum dómstólasýslunnar en taxtinn er fastákveðnar 18.500 krónur.

„Við höfum gert athugasemdir við að þóknun til umsjónarmanns nauðasamningsumleitana skuli samkvæmt ákvæðinu ákveðin sem tímagjald eftir reglum sem dómstólasýslan setur.  Tímagjald sem dómstólasýslan ákveður samkvæmt reglum sem þessum er ávallt umtalsvert lægra en almennt tímagjald lögmanna. LMFÍ hefur um langt skeið ýtt á eftir hækkunum og óskað eftir upplýsingum um útreikninga að baki ákvörðun um tímagjald, án árangurs,“ segir Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands.

Berglind bendir á að samkvæmt lögunum geti sami einstaklingur gegnt hlutverki bæði aðstoðarmanns og umsjónarmanns og þá fer þóknun hans sem aðstoðarmanns eftir samningi við skuldara en þóknun hans sem umsjónarmanns eftir tímagjaldi sem dómstólasýslan ákveður, og þá að öllum líkindum mun lægri. „Engin haldbær rök eru fyrir því að fyrirkomulag og tímagjald þóknunar umsjónarmanns eigi að vera annað og lægra en það sem gildir um aðstoðarmann.  Þetta sé enn sérkennilegra í ljósi þess að ábyrgð umsjónarmanns virðist vera ívið meiri,“ segir Berglind.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér