*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Innlent 5. ágúst 2018 16:05

Ósammála Nix frá Cambridge Analytica

Framkvæmdastjóri Pipar\TBWA segir borga sig að vera hluti af alþjóðlegri keðju, ein íslenskra auglýsingastofa.

Höskuldur Marselíusarson
Guðmundur Pálsson kom inn í Pipar\TBWA í gegnum TBWA Reykjavík sem alþjóðlega keðjan kom á fót hér á landi, en hann byrjaði fyrst í auglýsingageiranum 14 ára gamall.
Eva Björk Ægisdóttir

Framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar\ TBWA segir áskorun greinarinnar næstu árin vera samþætting auglýsingagerðar og gagnanotkunar. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur fyrirtækið byggt upp staðlaða leið til að vinna skapandi vinnu eins og auglýsingagerð.

Þrátt fyrir alla möguleikana sem fylgja stafrænu tækninni þurfi notkun hennar þó að vera innan eðlilegra marka. Guðmundur segir að það væri galið að mega nota gögn frá mismunandi fyrirtækjum til markaðssetningar fyrir eitthvað eitt.

Sagði tíma Mad Men liðna

„Eftir þessa nýju GDPR persónuverndarlöggjöf, sérðu mikið þegar farið er inn á nýja síðu á netinu viðvaranir. Þegar þú smellir á samþykkja, þá ertu að gefa fyrirtækjum leyfi til þess að nota upplýsingar um þig til markaðssetningar, en þér á að vera frjálst líka að ýta á meiri upplýsingar og loka á það.

Sumir líta á upplýsingaöflunina sem eitthvað slæmt, en aðrir vilja fá beint til sín upplýsingar um það sem þeir hafa áhuga á,“ segir Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar\TBWA, en hann segir að upplýsingar fyrirtækja um viðskiptavini sína skipta sífellt meira máli i markaðssetningu.

„En þessi lög hefta það hvernig þær eru notaðar, sem er frábært. Það væri alveg galið ef nota mætti upplýsingar frá mismunandi aðilum, því þá myndu allir gera það. Við viljum alls ekki að hægt sé að nota upplýsingar frá fyrirtæki A og nýta það fyrir fyrirtæki B.

Það væri algerlega óheiðarlegt, eins og talið er að Cambridge Analytica hafi staðið í þegar þeir söfnuðu upplýsingum frá mismunandi aðilum og notuðu svo í kosningaherferðir. Einn þeirra sem stóðu að þessu, Alexander Nix, kom hérna á Advania-ráðstefnuna fyrir ári síðan, þar sem hann var mjög flottur kynnir.

Hann sagði þá að tími Mad Men væru liðnir og tímar Data Men væru komnir, að allt snerist um stafræn gögn, tölfræði og upplýsingar og að auglýsingarnar sjálfar skipti engu máli. Ég er alls ekki sammála honum í því, en þetta tvennt verður að vinna saman. Það verður áskorunin næstu árin.“

Byrjaði í auglýsingum 14 ára

Þetta er augljóslega byltingarkennd breyting frá þeim tíma þegar Guðmundur hóf störf hjá Örkinni auglýsingastofu sem faðir hans rak.

„Ég byrjaði sem sendill í auglýsingabransanum þegar ég var 14 ára svo ég er búinn að vera ansi lengi í þessu. Ég vann hjá pabba á sumrin þegar ég var í menntaskóla og í eitt ár eftir það, en síðan fór ég til Bandaríkjanna að læra auglýsingafræði. Þegar ég kem til baka gerist ég markaðsstjóri, fyrst hjá B&L, IKEA og síðan Iceland Express þegar það var að byrja,“ segir Guðmundur sem sneri aftur í auglýsingarnar í gegnum TBWA Reykjavík.

„Þeir hjá TBWA höfðu samband hérna til Íslands í leit að samstarfsaðila þegar þeir sáu að Íslendingar voru að kaupa upp Evrópu hérna fyrir hrun. Þeir hafa um 320 stofur í nærri 100 löndum þar sem starfa um 11 þúsund manns. Við sameinuðumst síðan Pipar árið 2009 og svo Fíton árið 2014.

Við erum eina auglýsingastofan á Íslandi sem er hluti af alþjóðlegri keðju, en þrátt fyrir að við borgum ákveðna prósentu af veltu til þeirra hefur það algerlega borgað sig. Til dæmis hefur það gefið okkur tækifæri til að vinna með viðskiptavinum erlendis. Við höfðum t.a.m. samband við systurstofu í Asíu til að hjálpa okkur með ferðaþjónustufyrirtæki sem var í markaðssetningu þar.

Síðan höfum við aðgang að Facebook Workplace sem er eins konar innra net þar sem við skoðum hvað er að virka erlendis. Þar eru allir starfsmenn keðjunnar, sem gefur okkur tækifæri til að fá svör við fullt af spurningum og setja fram pælingar, hvort einhver hafi prófað hitt og þetta. Síðan koma sérfræðingar frá TBWA árlega hingað og halda fyrirlestra, núna næst á Grand Hótel 14. september.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.