Páll Magnússon oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi segist ekki styðja ráðherralista Bjarna Benediktssonar formanns flokksins. Ráðherralisti Sjálfstæðisflokksins var kynntur þingmönnum á fundi í Valhöll nú í hádeginu, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fékk Páll ekki neitt ráðuneyti.

Segir hann í yfirlýsingu á facebook síðu sinni að hann geti ekki stutt ráðherralistann því þar með sér verið að ganga fram hjá öðru höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins í landinu. Hann tekur þó fram að hann hafi greitt atkvæði með stjórnarsáttmálanum og að hann styðji ríkisstjórnina.

„Í annað sinn á innan við ári hefur formaður Sjálfstæðisflokksins nú gengið framhjá Suðurkjördæmi þegar kemur að ráðherraskipan í ríkisstjórn sem flokkurinn á aðild að. Þetta gerist þrátt fyrir að kjördæmið sé annað höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins á landinu.

Ég mótmælti því harðlega í samtali við formanninn í morgun að hlutur kjördæmisins skuli þannig vera fyrir borð borinn og tilkynnti honum að af þessari ástæðu gæti ég ekki stutt þann ráðherralista sem hann lagði fyrir þingflokkinn.

Áréttað skal að ég greiddi atkvæði með stjórnarsáttmálanum og styð ríkisstjórnina.“