*

föstudagur, 17. september 2021
Fólk 7. febrúar 2020 12:17

Pálmi Freyr ráðinn yfir Kadeco

Kadeco, sem sér um eignirnar á gamla Varnarsvæðinu, hefur ráðið Pálma Frey Randversson sem framkvæmdastjóra.

Ritstjórn
Pálmi Freyr Randversson kemur frá Isavia til að taka við stjórn Kadeco.
Aðsend mynd

Stjórn Kadeco, sem sér um gamla varnarsvæðið á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll eftir brottför Bandaríkjahers, hefur ráðið Pálma Frey Randversson sem framkvæmdastjóra félagsins. Hann tekur til starfa 1. mars næst komandi.

Pálmi hefur undanfarin ár starfað sem deildarstjóri og verkefnastjóri hjá Isavia við mótun og utanumhald þróunar- og uppbyggingaráætlana Keflavíkurflugvallar. Þá hefur hann jafnframt stýrt hönnunarsamkeppni og forvali vegna þróunaráætlunar, tekið þátt í vinnu við deiliskipulag og aðalskipulag flugvallarins.

Pálmi lauk M.Sc. prófi í Urban Design, borgarhönnun, frá Háskólanum í Álaborg árið 2009 og B.Sc. prófi í sama fagi frá sama háskóla 2003. Hann hefur setið fjölda ráðstefna og námskeiða varðandi þróun flugvallaborga.

Pálmi starfaði áður sem verkefna- og teymisstjóri og borgarhönnuður hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Þar stýrði hann fjölmörgum verkefnum tengdum umhverfis-, skipulags- og samgöngumálum.

„Ég er þakklátur fyrir það mikla traust sem stjórn Kadeco sýnir mér og hlakka til að takast á við þá áskorun að þróa það mikla land sem umlykur Keflavíkurflugvöll á grundvelli samkomulags ríkisins, Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Isavia. Flugvallarsvæðið hefur gríðarlega vaxtamöguleika enda um framtíðarsvæði landsins að ræða,“ segir Pálmi Freyr.

Ný stjórn Kadeco var kosin á hluthafafundi 13. janúar s.l. Stjórnarmenn eru nú fimm talsins eftir að undirritað var samkomulag milli ríkisins, Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Isavia um þróun og landnýtingu á því landi sem umlykur Keflavíkuflugvöll.

Stjórn Kadceo er þannig skipuð:

  • Ísak Ernir Kristinsson formaður
  • Steinunn Sigvaldadóttir
  • Ólafur Þór Ólafsson
  • Reynir Sævarsson
  • Elín Árnadóttir.

„Með ráðningu Pálma í starf framkvæmdastjóra fær Kadeco reynslumikinn aðila á sviði þróunar- og skipulagsmála. Við treystu Pálma fullkomlega til þess að takast á við þau krefjandi en jafnframt áhugaverðu verkefni sem framundan eru og leiða félagið inn í nýja og spennandi tíma,” segir í tilkynningu um ráðningu Pálma Freys.

Alls bárust 67 umsóknir um starfið og fékk stjórn Kadeco Capacent til þess að annast ráðningaferlið.