Pálmi Haraldsson hefur í að minnsta kosti 50 tilfellum samsamað sig Fons. Hann hefur um árabil verið kenndur við hlutafélagið Fons, án þess að hafa gert við það athugasemdir. Þetta kemur fram í greinargerð Karls Axelssonar, lögmanns Svavars Halldórssonar fréttamanns á Rúv. Í gær var fyrirtaka í máli Pálma gegn Svavari vegna fréttar hins síðarnefnda.

Í stefnu Pálma gegn Svavari segir að Pálmi eigi ekki að þurfa að vera samsamaður Fons og að framsetning fréttarinnar sé röng.

„ Það var Fons, hlutafélag með takmarkaðri ábyrgð og sjálfstæður lögaðili, sem fékk fjármunina að láni, en ekki stefnandi, “ segir í stefnunni. Vitnaði er í fréttina frá 25. mars sl. þar sem segir „2.500 milljónir króna, sem Pálmi Haraldsson fékk lánaðar hjá Glitni fyrir hrun, virðast gufaðar upp í flókinni viðskiptafléttu“.

Í greinargerð Karls segir að stefnandi hafi verið aðaleigandi Fons, annars tveggja prófúrkuhafa og einn skráður í framkvæmdarstjórn.

„Það má því vera nokkuð augljóst að engar stærri ákvarðanir hafi verið teknar í hlutafélaginu, svo sem um stórar lántökur, án þess að stefnandi sjálfur hefði um það allt að segja.

Þá bendir stefndi jafnframt á að stefnandi hefur um árabil verið kenndur við hlutafélagið Fons. án þess að stefnandi hafi gert við það athugasemdir. Stefnandi hefur raunar sjálfur margsinnis og endurtekið samsamað sig félaginu Fons, eins og sjá má af gögnum sem tekin voru saman af Fjölmiðlavakt CredtInfo, og verða lögð fyrir dóminn af hálfu stefnda.

Þannig hefur stefnandi í að minnsta kosti 50 tilfellum samsamað sig félaginu, meðal annars með því að nota persónufornafnið „ég“ þegar hann er að fjalla um Fons, eins og sjá má af fylgiskjölum stefnda. Málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti gengur því einfaldlega ekki upp.

Við þetta má ennfremur bæta að skiptastjóri Fons hf. hefur höfðað mál á hendur stefnanda og farið fram á að stefnandi endurgreiði búinu greiðslur vegna persónulegra útgjalda sem Fons mun hafa greitt fyrir stefnanda. Bendir þetta allt til þess að stefnandi hafi sjálfur ekki gert greinarmun á sjálfum sér og hlutafélaginu Fons,“ segir í greinargerðinni.