Í nokkurn tíma hefur aðeins verið eitt app í boði sérstaklega ætlað til að leggja bílum í miðborg Reykjavíkur að því er haldið er fram í fréttatilkynningu frá félaginu Parka, sem segjast nú vera að bjóða upp á annan valmöguleika fyrir Íslendinga. Það segist jafnframt ekki rukka notendur um þjónustugjöld eða önnur aukagjöld.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hefur sænska félagið EasyPark keypt íslenska appið Leggja af Já.is. Þess utan hefur Síminn Pay boðið upp á sömu þjónustu og Leggja, auk þess að vera almenn greiðslu- og lánalausn.

Parka (MyParking ehf.) er fyrirtæki sem nýsköpunarfyrirtækið Computer Vision stofnaði í samstarfi við Sýn hf. og hefur fyrirtækið gert samning við Bílastæðasjóð Reykjavíkurborgar um greiðslu í gjaldsvæði í Reykjavík. Appið hefur verið í prófunum undanfarnar vikur en má nú nálgast í App Store fyrir iPhone og Google Play fyrir Android.

Ægir Finnsson tæknistjóri appsins segir því ætlað að auðvelda greiðslur fyrir bílastæði og tengda þjónustu fyrir einstaklinga.

„Parka appið einfaldar notkun meira en áður hefur þekkst með því að nýta staðsetningu og sýna greiðslusvæði á korti,“ segir Ægir. „Parka man staðsetningu á bílnum við notkun og sendir þér fríar áminningar um að skrá þig úr stæði.“

Auk þess að geta greitt fyrir bílastæði á svæðum P1-P4 í Reykjavík er hægt að nota appið til að greiða á eftirfarandi stöðum:

  • Höfðartorg
  • Hafnartorg
  • Skaftafell í Vatnajökulsþjóðgarði
  • Þingvallaþjóðgarður

Draumurinn að ekki verði þörf á að taka símann upp

Félagið segir það nýjung á markaðnum að notendur greiði engin mánaðargjöld eða aukagjöld fyrir notkun á appinu. Þess í stað stefnir fyrirtækið á að afla tekna með öðrum hætti með nýjum lausnum sem verða kynntar á næstu dögum.

„Við höfum fulla trú á því að geta aflað tekna með öðrum leiðum og sjáum ýmis tækifæri sem verða kynnt betur á næstunni. Við erum nýsköpunarfyrirtæki sem hugsar í lausnum og setjum notandann í fyrsta sæti,“ segir Ægir.

„Parka er ætlað að auðvelda þér lífið og verða eins sjálfvirkt og hægt er. Draumurinn okkar er að þegar þú ekur inn á bílastæði að þá þurfir þú ekki einu sinni að taka upp appið. Þessa lausn munum við frumreyna í Hafnartorgi.”