Rannveig Rist var ein af fyrstu konunum til að ljúka vélaverkfræði í Háskóla Íslands. Hún er einnig vélvirki og með vélstjórapróf frá Vélskóla Íslands, sem skömmu eftir aldamót rann inn í Tækniskólann. Rannveig hóf störf í álverinu í Straumsvík árið 1990 og sjö árum seinna, eða árið 1997, var hún ráðinn forstjóri álversins, Rio Tinto Alcan á Íslandi, og gegnir þeirri stöðu enn í dag.

„Árið 1994 var ég gæðastjóri og ábyrg fyrir rannsóknarstofunni í Straumsvík,“ segir Rannveig, sem þá var titluð yfirmaður öryggis- og gæðamála. „Viðskiptaumhverfið var svolítið öðruvísi á þessum tíma. Við höfðum tölvur og notuðum þær töluvert en það sem hefur breyst mest eru samskiptin og upplýsingaflæðið. í dag er auðveldara að afla upplýsinga og allt er miklu opnara og reyndar líka meiri hraði í öllu.“

„Kynslóðin, sem var ráðandi á þessum tíma, var formlegri en sú kynslóð sem ræður í dag. Þessi formlegheit höfðu bæði sína kosti og galla. Þau gátu verið leiðigjörn en hlutirnir voru að mörgu leyti í fastari skorðum og verkaskipting skýrari. Nú er þetta miklu óþvingaðra og óformlegra sem gerir vinnuna skemmtilegri og þægilegri. Fyrir tuttugu árum voru líka miklu fleiri stjórnunarlög en nú er skipuritið flatara þannig að boðleiðir eru styttri sem gerir samskiptin auðveldari.“

Viðtalið við Rannveigu má finna í heild sinni í 20 ára afmælisriti Viðskiptablaðsins.