Það er samdóma álit þeirra sem að þessu koma að árangur okkar er langt umfram það sem við þorðum að vona,“ segir Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík. Reykjavíkurborg, Icelandair Group og Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús settu Meet in Reykjavík á laggirnar fyrir tveimur árum og er það samstarfsvettvangur um markaðssetningu á Reykjavík sem alþjóðlegri ráðstefnu- og viðburðaborg.

Á meðal markmiðanna fyrir tveimur árum var að innan þriggja ára myndi ráðstefnu- og viðburðagestum hér á landi fjölga um 20%, að árlegur tekjuauki vegna vaxtar í greininni yrði að lágmarki milljarður króna og að alþjóðlegar ráðstefnur í Reykjavík yrðu að minnsta kosti þrjátíu á ári.

Þorsteinn segir margt hafa áunnist á þessum tveimur árum. Búið sé að útbúa mikið af tilboðsefni sem hægt er að breyta með litlum tilfæringum fyrir mismunandi markhópa. „Þetta hjálpar okkur töluvert í því að komast fremst í röðina þegar við erum að bjóða í hluti. Við kryddum aðeins með myndefni og tengjum viðkomandi þáttum, s.s. íþróttum, náttúru og fleiru til,“ segir Þorsteinn og bendir á mikilvægi þess að koma réttum upplýsingum á framfæri um land og þjóð. „Það eru alltaf einhverjir sem halda að við búum í snjóhúsum,“ segir hann.

Fjallað er nánar um málið í blaðinu Ráðstefnur og fundir, sem fylgi Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið allt hér að ofan undir liðnum  tölublöð .