Fjármálaráðuneytið fagnar breyttri afstöðu Hafnarfjarðarbæjar gagnvart St. Jósefsspítala, en bærinn tilkynnti fyrr í vikunni að hann hefði áhuga á að kaupa húsnæðið.

Ráðuneytið segir að í fyrri samskiptum hafi það lýst yfir áhuga á að selja bænum húsnæðið, en að bærinn hafi þá ekki haft áhuga.

Í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar þá vill ráðuneytið benda á að fjölmargar fyrirspurnir hafi borist í eignirnar, sem benda sterklega til þess að mikill áhugi sé á eignunum á hinum almenna markaði. Þá hafa einnig nokkur áhugaverð tilboð borist í eignirnar þótt þær hafi ekki verið í formlegu söluferli í nokkurn tíma.

Það eru hagsmuni beggja aðila að hefja starfsemi sem fyrst í húsnæðinu og óviðunandi að húsnæðið standi autt í svo langan tíma. Frekari dráttur málsins leiðir til aukins kostnaðar, einkum fyrir ríkið sem hefur borið allan rekstrarkostnað húsnæðisins frá því að starfsemi lagðist af í eignunum, og seinkar því að eignirnar verði gerðar upp og nýttar að nýju.

Ráðuneytið fagnar því breyttri aðstöðu Hafnarfjarðarbæjar um að bærinn vilji kaupa eignarhluta ríkisins.