Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki svarað þriggja ára fyrirspurn Alþingis um áhrif opinberra fyrirtækja á samkeppni þrátt fyrir að ár sé síðan Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skilaði skýrslu um málefnið til ráðuneytisins. Ráðuneytið meinaði stofnuninni einnig að birta skýrsluna á vef sínum eftir að henni var skilað, en hún hefur nú verið birt þar .

Skýrslan – sem ber titilinn áhrif fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga á samkeppni – var pöntuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í nóvember 2019 eftir fyrirspurn frá tíu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem lögð hafði verið fram í sama mánuði árið áður.

Henni var svo sem fyrr segir skilað af Hagfræðistofnun til ráðuneytisins í október í fyrra. Í kjölfarið bað stofnunin ráðuneytið um leyfi til að birta hana á vef sínum, en ráðuneytið bað hana um að bíða með það, og bar fyrir sig að ekki væri búið að vinna málið innan þess, áður en endanlegu svari yrði skilað til Alþingis. Stofnunin setti þá titil hennar í yfirlit yfir skýrslur ársins, en án hlekks á texta skýrslunnar.

Ekkert svar hefur enn borist Alþingi, og í síðustu viku tók stofnunin einhliða ákvörðun um að birta hana í ljósi þess að hún hafi verið skrifuð sem hluti af svari við fyrirspurn Alþingis, sem nýlega var endurkjörið, og næstum ár sé liðið síðan henni var skilað.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki svarað fyrirspurnum Viðskiptablaðsins um málið.