Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, hefur fengið heimild frá bæjarráði Hafnarfjarðar til að hefja á nýjan leik viðræður við HS Orku um rannsóknir á jarðhitasvæði í Krýsuvík, með tilliti til orkuvinnslu á svæðinu.

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Ásgeiri Margeirssyni, forstjóra HS Orku, að hugmyndin um orkuvinnslu á svæðinu sé ekki ný af nálinni, heldur hafi hún verið til umræðu í áratugi. Þá hafi HS Orka fyrir löngu aflað rannsóknarleyfis á umræddu svæði.

Ásgeir sendi bæjaryfirvöldum hins vegar bréf nýlega þar sem óskað var eftir formlegum viðræðum á ný. Í bréfinu eru helstu hugmyndir HS Orku um nýtingu svæðisins kynnntar. Auk þess að vilja rannsaka jarðhitasvæðið í Krýsuvík, með tilliti til raforkuvinnslu, þá vill fyrirtækið kanna aðstæður til mannvirkjagerðar og kortleggja umhverfisþætti ef til virkjunar kæmi á svæðinu. Þá vill HS Orka kanna möguleikann á því að framleiða heitt vatn, sem flutt yrði til höfuðborgarsvæðisins til hitaveitunotkunar.