Six Rivers Project, sem Sir Jim Ratcliffe stendur að baki, hyggst fjárfesta fyrir 4 milljarða króna í uppbyggingu við veiðiár á Norðausturlandi en ný veiðihús verða byggð við Miðfjarðará í Bakkafirði, Hofsá og í Vesturárdal, auk viðbyggingar við veiðihús Six Rivers Project við Selá í Vopnafirði

Í nágrenni laxveiðiáa í umsjá Six Rivers Project á Norðausturlandi verða byggð fjögur ný veiðihús af mestu gæðum með fjárfestingu allt að 4 milljörðum króna. Uppbyggingin er hluti af langtímamarkmiði verkefnisins um að gera óhagnaðardrifið verndarstarfið sjálfbært í viðleitni sinni til að snúa við hnignun Norður-Atlantshafslaxstofnsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fram kemur að veiðihúsin nýju munu laða að laxveiðimenn hvaðanæva að sem láti sig viðgang og verndun Norður-Atlantshafslaxins varða. Um sé að ræða uppbyggingu sjálfbærs rekstrar, með fastri reglu um að öllum veiddum fiski sé sleppt, og þar sem allur ágóði rennur til verndarstarfsins.

Starfsemin mun færa Norðausturlandi sjálfbæra fjárfestingu og styður við verndun Norður-Atlantshafslaxins á svæðinu til langrar framtíðar. Byggð verða ný veiðihús við Miðfjarðará í Bakkafirði, Hofsá og í Vesturárdal, auk þess sem rísa mun viðbygging við veiðihús Six Rivers Project við Selá í Vopnafirði. Uppbyggingin mun ekki kalla á frekari jarðakaup.

Veiðihúsin nýju verða í eigu Six Rivers Project. Veiðifélögin á svæðinu bera ekki af þeim neinn kostnað, þótt allir njóti góðs af uppbyggingunni. Auk þess að styðja við verndarstarfið er þess vænst að veiðihúsin fjölgi störfum á svæðinu og laði að frekari fjárfestingu í þjónustu við ferðamenn á Norðausturlandi.

„Framkvæmdirnar sýna á skýran máta markmið okkar um verndun Norður-Atlantshafslaxins í ánum á Norðausturlandi. Með byggingu veiðihúsa af bestu gerð á þessum afskekkta hluta landsins vonumst við til að búa gestum okkar einstaka reynslu við stangveiðar. Tekjurnar af þeirri starfsemi gagna svo til fjármögnunar áframhaldandi verndarstarfs,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers Project í tilkynningunni.

Six Rivers Project hefur nú tekið yfir alla starfsemi sem áður var á höndum Veiðiklúbbsins Strengs. Heimasíða verkefnisins hefur jafnframt verið endurnýjuð og þar er að finna allar helstu upplýsingar um verkefnið og sölu veiðileyfa í ánum. Eins má þar finna upplýsingar um framvindu rannsókna sem stundaðar eru við árnar í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands og Imperial College London.

Rannsóknirnar verða jafnframt til umræðu á alþjóðlegri ráðstefnu Six Rivers um verndun og stöðu Norður-Atlantshafslaxins sem ráðgert er að halda í Reykjavík í september. Þá kemur saman hópur heimsþekktra sérfræðinga á sviði verndarstarfs og ræðir leiðir til að snúa við hnignun Norður-Atlantshafslaxins á grunni hátæknivöktunar og mæling á laxinum í ám Norðausturlands. Er það í annað sinn sem Six Rivers Project stendur að slíkri ráðstefnu og byggir á ráðstefnu sem fram fór í Reykjavík í janúarlok 2020. Ráðstefnan verður nánar auglýst síðar.

Á vefsvæði Six Rivers Project segir:

„Six Rivers Project var ekki stofnsett til gróða, heldur til að leita leiða til að snúa við þeirri ógnvæglegu þróun sem hefur orðið. Allar tekjur af rekstri okkar í laxveiðiánum sex renna til rannsókna til að stemma stigu við fækkun Atlantshafslaxins. Að okkar mati bjóðum við uppá einhverja þá bestu laxveiði sem í boði er, en sjálfbærni er lykilorðið og við förum varlega með auðlindina."