5 ára verðbólguálag ríkisskuldabréfa var 4,25% við lokun markaða á miðvikudag og hafði ekki verið jafn lágt síðan í lok október í fyrra. 5 ára verðbólguálagið lækkaði um 0,16% (16 punkta) í viðskiptum dagsins en Seðlabankinn hafði tilkynnt um 50 punkta stýrivaxtahækkun um morguninn.

10 ára álagið lækkaði um 8 punkta í viðskiptum dagsins og endaði hann í 4,32%, en hafði verið ögn lægra í lok síðustu viku og lægra eða á svipuðu róli allan seinni hluta júnímánaðar, auk þess að rétt dýfa sér undir það gildi þegar tilkynnt var um síðustu verðbólgumælingu sem kom flestum á óvart og lækkaði verulega niður í 7,6%. Álagið hafði þó hækkað aftur um 20 punkta upp í 4,5% aðeins viku síðar.

Viðbrögð skuldabréfamarkaða við hækkuninni voru almennt eins og við mátti búast. Á styttri enda óverðtryggða vaxtarófsins fylgdi ávöxtunarkrafan stýrivöxtunum upp á við um á annan tug punkta en strax og komið er út á miðjuna snúast áhrifin við, en fjara síðan út á langa endanum með aðeins 1 punkts lækkun á kröfu 19 ára bréfsins RIKB 42.