Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra sat 30. fund EES-ráðsins sem fór fram í Brussel í gær. Hún sat fundinn sem starfandi utanríkisráðherra í veikindum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Fyrir fundinn átti umhverfisráðherra sérstakan fund með Jean-Pierre Jouyet, Evrópumálaráðherra Frakklands, þar sem Þórunn gerði stutta grein fyrir stöðu mála á Íslandi og þeim efnahagsvanda sem að steðjar, að því er fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

"Frakkar hafa, í krafti formennsku sinnar í ráði ESB, tekið að sér og átt frumkvæði að því miðla málum vegna innistæðureikninga í Hollandi og Bretlandi," segir þar enn fremur.

Þá segir í tilkynningu að á sjálfum fundinum hafi ráðherrarnir rætt framkvæmd EES-samningsins og það sem framundan væri í samstarfinu.

"Þar má nefna viðræður um frekari framlög í þróunarsjóð EFTA, þátttöku í samstarfsáætlunum og stofnunum Evrópusambandsins auk orku- og loftslagsstefnu Evrópusambandsins sem skipar veigamikinn sess í starfsemi þess nú um stundir. Einnig var rætt um málefni norðurslóða en Evrópusambandið vinnur nú að stefnu sinni á því sviði. Gerði umhverfisráðherra ítarlega grein fyrir helstu áherslum Íslands í málefnum tengdum norðurslóðum."