IFS Greining spáir því að hagnaður Sjóvár dragist nokkuð saman á milli ára í ár. Fram kemur í afkomuspá IFS Greiningar fyrir Sjóvá að gert sé ráð fyrir 190 milljóna króna hagnaði fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi en 1,9 milljarða króna hagnaði á árinu öllu. Til samanburðar nam hagnaður Sjóvár rúmum 2,1 milljarði króna í fyrra. Yrði hagnaður Sjóvár í samræmi við spá IFS Greiningar myndi hagnaður tryggingafyrirtækisins því dragast saman um 12% á milli ára.

Uppgjör Sjóvár verður birt á morgun og verður þetta fyrsta uppgjör tryggingafélagsins eftir að hlutabréf þess voru skráð á markað í síðasta mánuði.

Afkomuspá IFS Greiningar hljóðar upp á 3,4 milljarða króna iðgjöld á fyrsta ársfjórðungi og 13,6 milljarða iðgjöld á árinu öllu. Það svarar til 4,2% vaxtar.