Danski lyfja­risinn Novo Nor­disk býst við að rekstrar­hagnaður á árinu verði 19% til 27% meiri í ár en í fyrra vegna gríðar­legrar eftir­spurnar í sykur­sýkis­lyfið Ozempic og þyngdar­stjórnunar­lyfið Wegovy.

Sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu í morgun býst fé­lagið við því að tekjur muni aukast um 17% til 25% á milli ára en Reu­tersgreinir frá.

Novo hefur eytt milljörðum dala á síðustu árum í að auka fram­leiðsluna á Wegovy en sam­kvæmt til­kynningunni í morgun kom fé­lagið tvö­falt fleiri skömmtum á markað í Banda­ríkjunum í janúar en síðustu mánuði.

Lyfja­fyrir­tækið á þó langt í land með því að ná að mæta eftir­spurn sem er enn í hæstu hæðum.

Gengi Novo hækkaði um 4% við opnun markaða en hefur síðan þá dalað ör­lítið með deginum. Markaðs­virði fé­lagsins í há­deginu í dag braut 500 milljarða dala múrinn sem sam­svarar um 68,3 þúsund milljörðum ís­lenskra króna.

Sam­kvæmt til­kynningu fé­lagsins í morgun seldi lyfja­fyrir­tækið Wegovy fyrir 1,4 milljarða dala á milli októ­ber og desember sem sam­svarar 191 milljörðum króna.

Tekjur fé­lagsins á fjórða árs­fjórðungi jukust 37% á milli ára og námu 1,311 milljörðum ís­lenskra króna.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) hækkaði um 57% og nam 533 milljörðum ís­lenskra króna.