Starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. (FLE) skilaði eins milljarðs
króna rekstrarhagnaði í fyrra sem er rúmlega hundrað milljóna króna meiri
hagnaður en 2004.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að árið 2005 einkenndist af vexti á öllum sviðum og flestar kennitölur rekstrarins voru betri en á fyrra ári.

Stjórn FLE telur mikilvægt að tekjur flugvallar og flugstöðvar nýtist í
uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli í breytingarferlinu framundan.

Tímamót verða í verslunarrekstri í flugstöðinni á morgun, 1. apríl, þegar
Íslenskur markaður hættir formlega starfsemi sinni.

Árið 2005 var hagfellt fyrir FLE hf. og dótturfélögin tvö, Fríhöfnina ehf. og Íslenskan markað ehf. Rekstrartekjur samstæðunnar náðu ríflega 6,2 milljörðum króna og jukust um 6,3% frá fyrra ári, rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða námu tæplega 4,2 milljörðum króna og jukust um 4,7% frá fyrra ári. Heildartekjur jukust um nær hálfan milljarð króna, sem er talsvert umfram áætlun. Þetta kom fram á aðalfundi FLE hf. í flugstöðinni í gær.

FLE greiðir eigenda sínum, íslenska ríkinu, 250 milljónir króna í arð vegna rekstrarársins 2005. Félagið hefur þar með greitt alls 1.250 milljónir króna í arð í ríkissjóð frá upphafi sem jafngildir helmingi hlutfjársins sem ríkið lagði félaginu til við stofnun þess árið 2000.

Farþegum á Keflavíkurflugvelli fjölgaði um 11% árið 2005, talsvert umfram spár. Gert er ráð fyrir að um tvær milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll í ár en til samanburðar má geta þess að farþegar voru ríflega 1,2 milljónir talsins árið 2002. Þessi mikla farþegafjölgun kallaði á að flýta framkvæmdum við að stækka flugstöðina og í því ljósi ákvað stjórn FLE á árinu 2005 að stækka norðurbygginguna um 14.000 fermetra og
endurnýja og breyta húsaskipun á 16.000 fermetrum í flugstöðvarbyggingunni.

Eftir breytingar og stækkun verður gólfflötur allrar flugstöðvarinnar um 55.000 fermetrar. Heildarfjárfestingin er upp á nær sjö milljarða króna á árunum 2004-2007. Fyrsti áfangi nýs brottfararsvæðis verður tekinn í notkun nú á vordögum. Þegar yfirstandandi framkvæmdum lýkur snemmsumars 2007 verður brottfararsvæðið meira en tvöfalt stærra
en nú og rekstur verslunar, þjónustu og afþreyingar af ýmsu tagi verður umfangsmeiri en nokkru sinni fyrr.

Markmið með stækkun flugstöðvarinnar er vissulega að auka þjónustu við farþega, styrkja tekjugrunn fyrirtækisins og anna farþegafjölgun til ársins 2015. Öðrum þræði er líka verið að auka hlut einkafyrirtækja í verslun og þjónustu og minnka hlut ríkisins að sama skapi.

Þannig verður rekstur Íslensks markaðar formlega lagður af á morgun, 1. apríl, en vörur sem þar hafa verið seldar frá upphafi fyrirtækisins fyrir 36 árum, verður hér eftir að finna í verslunum Bláa lónsins, Haga, Pennans-Eymundsons og Rammagerðarinnar í flugstöðinni.