Þokkaleg þátttaka var í skuldabréfaútboði Reykjavíkurborgar í gær þar sem flokkurinn RVK 09 1 var í boði. Þannig bárust alls tilboð að fjárhæð 300 milljónir króna að nafnvirði í flokkinn og var ákveðið að taka þeim öllum á ávöxtunarkröfunni 3,75%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

„Að okkar mati má borgin vel una við þessa niðurstöðu þrátt fyrir að fjárhæð þeirra tilboða sem bárust og tekið var sé nokkuð undir þeim 500 milljónum króna sem borgin stefndi að því að taka. Sem kunnugt er hafði Reykjavíkurborg ákveðið fyrirfram að hafna öllum þeim tilboðum á hærri ávöxtunarkröfu en 3,75%. Eftir útboðið er flokkurinn orðinn 9.630 milljónir króna að stærð, en heimilt er að stækka hann um 6 ma.kr. til viðbótar á yfirstandandi ári,“ segir í Morgunkorni.