Samkvæmt nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar við þá íbúa borgarinnar sem til þess eiga rétt verði hækkuð um 16,35% og fjármagn til fjárhagsaðstoðar verði aukið.

Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.

Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar er hækkuð skv. nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 um 16,35%. Það þýðir að framfærsla einstaklinga hækkar úr 99.329 krónum á mánuði í 115.567.Sé miðað við hjón/fólk í skráðri sambúð hækkar framfærslan úr 158.926 krónum í 184.907.

Þá kemur fram að fjármagn til fjárhagsaðstoðar er einnig aukið og nemur 2,1 milljarði króna í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2009.

„Forsendur fjárhagsáætlunar gera ráð fyrir 7% atvinnuleysi en vegna mikillar óvissu um hvernig atvinnuleysi mun þróast hefur verið ákveðið að fjárhagsaðstoð verði bundinn liður í fjárhagsáætlun borgarinnar,“ stendur á vef Reykjavíkurborgar.

„Það þýðir að aukist þörf fyrir fjárhagsaðstoð mun borgarsjóður koma til móts við aukin útgjöld.“

Heimildargreiðslur vegna barna verða einnig hækkaðar um 16,35% og verða einnig bundinn liður.

Sjá nánar vef Reykjavíkurborgar.